GILDI OG SAMFÉLAGSLEG ÁBYRGÐ

Stefna ARTA

Við virðum hvert annað á jafnréttisgrundvelli og viljum að fyrirtækið sé vettvangur þar sem fólk nýtur vinnu sinnar og deilir skoðunum sínum, jákvæðum starfsanda og metnaði til að bera af. Þannig náum við árangri fyrir hönd viðskiptavina okkar.

Gildi ARTA

Virðing

Við berum virðingu fyrir þeim sem við eigum samskipti við og skoðunum þeirra. Við nálgumst viðfangsefni okkar af virðingu, um leið og við tryggjum hagsmuni viðskiptamanna okkar til hins ýtrasta gætum við meðalhófs. Með aðgætinni framkomu okkar öðlumst við virðingu annarra og eigum auðveldara með að vinna hagsmunum viðskiptamanna okkar brautargengi.

Traust

Við leggjum metnað okkar í að koma fram af heiðarleika og staðfestu fyrir hönd viðskiptamanna okkar. Með því að viðhafa fagmannleg vinnubrögð þar sem réttsýni og heilindi eru höfð að leiðarljósi ávinnum við okkur traust viðskiptamanna, samstarfsaðila og gagnaðila. Þar sem traust ríkir er auðveldara að koma málum í höfn.

ÁRANGUR

Við sýnum snerpu og frumkvæðni í störfum til að ná árangri fyrir viðskiptamenn okkar. Við vinnum saman sem ein heild svo þekking okkar og reynsla nýtist sem best í þágu þeirra verkefna sem við tökumst á hendur hverju sinni. Við aukum við kunnáttu okkar með sí- og endurmenntun til að efla styrkleika okkar og stuðla að auknum árangri.

Samfélagsleg ábyrgð

ARTA lögmenn telja afar mikilvægt að virða og stuðla að auknu jafnrétti og fjölbreytileika. Við lítum á það sem grunnskyldu okkar að mismuna ekki starfsmönnum, viðskiptamönnum eða öðrum sem við eigum samskipti við á grundvelli kynferðis, kynhneigðar, hjúskaparstöðu, barneigna, aldurs, fötlunar, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis eða stöðu að öðru leyti. Við leitumst við að ná þessu markmiði umfram þær skyldur sem á okkur eru lagðar með lögum og Codex ethicus, siðareglum lögmanna.

ARTA metur að verðleikum og leggur áherslu á fjölbreyttan bakgrunn starfsmanna sinna. Þrátt fyrir að starfsmenn séu allir Íslendingar hafa þeir aflað sér menntunar og starfsreynslu á mörgum mismunandi sviðum, víðsvegar um heiminn. Við hvetjum starfsmenn okkar til að þróast í starfi á ólíkum sviðum, ekki bara með starfsreynslu heldur einnig með því að sækja sí- og endurmenntun bæði hér á landi sem erlendis. Við byggjum á framangreindu er við bætum við starfslið okkar og er við ráðum laganema til tímabundinna starfa. ADVEL lítur á það sem skyldu sína að ráða reglulega laganema með ólíkan bakgrunn frá háskólum landsins í launað starfsnám eða hlutastarf til að veita þeim tækifæri til að kynnast starfsemi lögmannsstofu og auka við fjölbreytni í starfsliði stofunnar.

ARTA leggur mikla áherslu á vellíðan starfsmanna sinna og styður þá í að ná heilbrigðu jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Við hvetjum starfsmenn okkar til að taka fæðingar- eða feðraorlof til að sinna stækkandi fjölskyldu og veitum foreldrum ungra barna ákveðið svigrúm þegar þeir snúa til starfa að nýju eftir orlof. Við stuðlum að heilbrigðu líferni og hreyfingu starfsmanna með ýmsu móti til að draga úr streituvaldandi áhrifum starfsins. Við lítum á jafnvægi í kynjahlutföllum starfsmanna sem ótvíræðan kost.

ARTA er stoltur stuðningsaðili frumkvöðlastarfs í landinu í samvinnu við Icelandic Startups. Stofan hefur stutt frumkvöðlakeppnina Gulleggið með beinum fjárframlögum og auk þess stutt ýmist frumkvöðlastarf með vinnuframlagi, ráðgjöf, fyrirlestrum, dómarastörfum og endurgjaldslausri ráðgjöf fyrir einstaka frumkvöðla. Markmið stofunnar er að styðja enn betur við bakið á sprotafyrirtækjum með samningum um sambland af góðum afsláttarkjörum og endurgjaldslausri ráðgjöf. Tilgangurinn er að styðja við fjölbreytt íslenskt atvinnulíf sem skapar blómlegt samfélag í landinu. ARTA styður jafnframt ýmis menningar- og góðgerðarmál með beinum fjárframlögum allan ársins hring.

ARTA leggur áherslu á að fylgja, ekki bara gildandi lögum, heldur viðtekinni háttsemi og viðurkenndum gildum bæði hér á landi og alþjóðlega í störfum sínum. Þá er virðing eitt af mikilvægustu gildum stofunnar sem starfsmönnum er ætlað að hafa ætíð í huga í nálgun viðfangsefna sinna og í samskiptum við aðra.

Sími & tölvupóstur

Staðsetning

Laugavegur 182 – 105 Reykjavík

Laugavegur 182
– 105 Reykjavík